Össur: Valdarán sexmenninganna skaðaði OR gríðarlega

Össur Skarphéðinsson..
Össur Skarphéðinsson..

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir á heimasíðu sinni að menn skuli ekki fara neitt í grafgötur með það, að valdarán sexmenninganna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, sem framið hafi verið til að svala særðum metnaði, hafi haft ótrúleg verðmæti af Reykvíkingum og laskað Orkuveituna og starfsmenn þess gríðarlega.

Össur segir, að eftir hörð átök um Reykjavik Energy Invest, þar sem súru sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki íhaldsins réðust af kjafti og klóm gegn samruna REI við Geysi Green, hafi talsmenn flokksins gjörsnúist í málinu.

„Júlíus Vífill (Ingvarsson) var í fréttum, og ég heyrði ekki betur en hann hefði nú tekið upp afstöðu iðnaðarráðherra, sem sjálfur óttaðist að hann væri orðinn einn eftir í útrásinni.

Aldreilis ekki. Júlíus Vífill, og þarmeð íhaldið, vill nú að REI starfi með öðrum félögum, og jafnvel sameinist þeim og vinni saman að tilteknum verkefnum.

Því miður er þetta líklega of seint. Harðvítugustu innanflokksátök seinni ára í Sjálfstæðisflokknum hafa því miður nánast ónýtt vörumerkið REI hvað útrás varðar, og stórskaðað viðskiptavild Orkuveitunnar. Skemmdarverk þeirra má líklega meta á milljarðatugi ef miðað er við þá framvindu sem var í kortunum," segir Össur.

Heimasíða Össurar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert