Þegar Njáll Harðarson, sem er 60 ára, var farinn að spila tölvuleikinn World of Warcraft, WOW, sem tugir taka þátt í samtímis, nánast á hverjum degi gerði hann sér grein fyrir að komið væri nóg. ,,Ég ánetjaðist þessu ekki en spilaði alltof mikið. Það jaðraði við að ég léti eitthvað sitja á hakanum. Þegar ég fór í frí til Ítalíu fyrir tveimur mánuðum ákvað ég að nota tækifærið og hætta alveg," segir Njáll.
Upphafið að tölvuleikjanotkun hans var þegar hann ákvað að koma syni sínum úr heimi fíkniefnanna. ,,Ég hef unnið í tölvum frá því að þær urðu aðgengilegar og ákvað að vera með syni mínum í því sem hann hefur áhuga á. Ég sat með honum fyrir framan tölvu og kenndi honum að búa til vefsíður og annað. Hann flúði svo inn í þennan heim í staðinn. Menn eru að minnsta kosti ekki að gera neitt af sér á meðan en það er erfitt að ná þeim út úr þessu aftur. Sonur minn er reyndar farinn að spila minna nú, aðallega vegna þess að hann er búinn að fá leiða á þessu," segir Njáll.