Stórar töskur víða uppseldar

Stórar ferðatöskur eru uppseldar í nokkrum verslunum í Reykjavík og í sumum eru allar ferðatöskur uppseldar. Og Íslendingar fara svo að segja strípaðir utan til að hafa rými fyrir varninginn sem þeir kaupa.

,,Hjá okkur eru allar ferðatöskur uppseldar en það koma aftur töskur eftir um það bil viku," segir Sigríður Gröndal, innkaupastjóri sérvara hjá Hagkaupum. Hún segir söluna hafa verið meiri en gert var ráð fyrir.

,,Þetta er mjög óvenjulegt. Við gerðum söluáætlun miðað við sölu á þessum tíma í fyrra en hún stóðst ekki," greinir Sigríður frá.

Fjármálastjóri Europris, Leifur Einar Arason, segir menn þar ekki hafa undan að panta ferðatöskur. ,,Áður fóru minni töskurnar fyrst en nú er það öfugt."

Í bandaríska blaðinu Star Tribune er greint frá því að útlendingar nýti sér veika stöðu dollarsins og komi til Minneapolis í verslunarleiðangra, þar á meðal Íslendingar. Meðal annars er rætt við Andreu Guðjónsdóttur sem var þar í síðustu viku en er nú komin heim. Hún kveðst hafa farið utan með tómar töskur. ,,Ég hafði engin föt meðferðis nema þau sem ég var í því að þarna er hægt að gera rosalega góð kaup," segir Andrea sem farið hefur þrjú ár í röð til Minneapolis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert