Nóttin var með rólegra móti í höfuðborginni að sögn lögreglu þrátt fyrir nokkurn eril í miðborginni. Ein líkamsárás var skráð í bækur lögreglu, maður sem laminn var með glasi á veitingastað í miðbænum. Þá voru fimm teknir grunaðir um ölvunarakstur og einn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Ellefu gistu fangageymslur í nótt fyrir ýmsar sakir, en sex voru teknir fyrir brot á lögreglusamþykkt. Að sögn lögreglu hefur þeim brotum fækkað umtalsvert síðan farið var að taka hart á þeim og virðist fólk hugsa sig tvisvar um áður en það kastar af sér vatni á almannafæri, a.m.k. meðan lögreglan er nærri.