Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra á ekki von á öðru en stjórnarflokkarnir verði samstiga þegar kemur að næstu skrefum í loftslagsmálum. Hún segir þjóðum heims bera siðferðisleg skylda til að ná saman um frekari skuldbindingar í þeim efnum eftir að gildistíma Kýótóbókunarinnar lýkur í árslok 2012. Þar sé ábyrgð okkar Íslendinga engu minni en annarra ríkja.
„Í tveggja flokka samstarfi þarf stundum að finna leiðir til að ná samkomulagi. Ég hef samt ekki miklar áhyggjur af þessu vegna þess að um leið og fólk skoðar ofan í kjölinn hvað við höfum fengið og hvað er í húfi fyrir lífríkið á jörðinni næstu öldina hljóta menn að gera sér grein fyrir því að sérhagsmunir einstakra ríkja eru aukaatriði í þessu sambandi,“ segir umhverfisráðherra.
Ísland fékk undanþágu við gerð Kýótóbókunarinnar sem felst í því að okkur er heimilt að auka losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 10% á gildistímanum meðan aðrar aðildarþjóðir minnka sína losun að meðaltali um 5,2%.
Þórunn segir ótímabært að ræða um frekari undanþágur til handa Íslendingum en næsta samningaferlið hefst senn í Balí. Stærsta verkefnið þar, að áliti umhverfisráðherra, er að ná ríkjum heims að samningaborðinu.
„Það er ekkert gefið í þessum efnum en takist að ná löndum á borð við Bandaríkin, Ástralíu, Indland og Kína að borðinu er mikill sigur unninn í Balí. Ísland er eitt af ríkustu löndum heims – sem betur fer – og við búum við aðstæður sem flesta dreymir um að búa við. Það blasir við að við munum þrýsta á að aðrir axli sína ábyrgð, ekki síst Bandaríkin, sem tilheyra ríka hópnum. Þurfum við þá ekki að gera það sjálf líka?“