Yfirvöld gættu ekki leiðbeiningaskyldu

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fyrirsvarsmann Góu-Lindu sælgætisgerðar til að greiða 200 þúsund króna sekt til ríkissjóðs fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Var hann fundinn sekur um að hafa ráðið í vinnu til sín þrjár konur frá Serbíu, á tímabilinu frá byrjun febrúar 2005 til 30. apríl 2006, án þess að tilskilin atvinnuleyfi lægju fyrir og einnig að hafa ekki tilkynnt Útlendingastofnun um að hann hefði fengið útlending í þjónustu sína áður en þær hófu störf.

Maðurinn hélt því m.a. fram að hann hefði verið ranglega ákærður í málinu þar sem gerðir þær sem fjallað væri um hefðu alfarið verið framkvæmdar í nafni lögaðilans Góu-Lindu. Í niðurstöðu dómsins kom hins vegar fram að ákærði væri lögum samkvæmt fyrirsvarsmaður fyrirtækisins og bæri því refsiábyrgð á ákvörðunum sem fyrirsvarsmaður.

Einnig hélt fyrirsvarsmaðurinn því fram að umræddar konur hefðu haft öll tilskilin leyfi til að hann mætti ráða þær til vinnu hjá fyrirtæki sínu í febrúar 2005 og hefðu leyfi þeirra gilt til ársloka það ár. Þá taldi hann jafnframt að honum hefði verið heimilt að hafa þær áfram í vinnu á árinu 2006 á meðan vinnsla umsókna um framlengingu leyfa stæði yfir.

Vinnumálastofnun hafnaði umsókn Góu-Lindu um áframhaldandi leyfi í nóvember 2005 en sú niðurstaða var kærð til félagsmálaráðuneytisins. Í úrskurði ráðuneytisins, sem dagsettur er 29. september 2006, segir að knattspyrnudeild Hauka hafi verið veitt atvinnuleyfi fyrir konurnar en skömmu eftir komu þeirra til landsins hafi hins vegar borist tilkynning til Vinnumálastofnunar þar sem tekið hafi verið fram að samningum við konurnar, sem voru leikmenn Hauka, hafi verið rift.

Einnig var tekið fram að útlendingi með tímabundið atvinnuleyfi hjá ákveðnum atvinnurekanda væri óheimilt að hefja störf hjá öðrum atvinnurekanda. Vildi hann skipta um starf yrði nýi atvinnurekandinn að sækja um atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar og útlendingnum væri óheimilt að hefja störf fyrr en leyfið hefði verið veitt.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að maðurinn hefði ekkert gert til að leyna broti sínu, torvelda rannsókn málsins eða draga það á langinn. Nokkuð virðist hins vegar hafa skort á að yfirvöld gættu leiðbeiningarskyldu eða fylgdu málinu eftir með skýrum fyrirmælum til mannsins sem margsinnis leitaði til yfirvalda vegna málsins. Auk þess hefði tekið mjög langan tíma að afgreiða kæru hans á synjun atvinnuleyfa til æðra stjórnvalds, eða um tíu mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert