Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, var vígsluvottur í fyrstu biskupsvígslu sem fram hefur farið í Færeyjum, þegar Jógvan Fríðriksson var vígður nýr biskup Færeyja við messu í Þórshöfn í gær.
Karl las ritningartexta úr nýrri útgáfu íslensku Biblíunnar, sem hann færði hinum nývígða biskupi að gjöf.
Biskupar Færeyja hafa áður verið vígðir í Danmörku. Færeyska þjóðkirkjan hlaut sjálfstæði síðastliðið sumar, en var áður hluti af dönsku kirkjunni. Í Færeysku kirkjunni eru 14 prestaköll og 60 sóknir.
Jógvan Friðriksson tekur við embættinu 1. desember næstkomandi af Hans Jacob Joensen, biskupi í Færeyjum, sem vígði hinn nýja biskup.