Jarðskjálfti að styrkleika 4,4 mældist vestur af Hveravöllum við norðanverðan Langjökul um klukkan 15:30 nú síðdegis. Skjálftinn fannst á Blönduósi og í Húnavatnssýslu, og hafa veðurfræðingar fengið fregnir af því að hann hafi einnig fundist á Akureyri.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hófst skjálftahrina á svæðinu skömmu fyrir tvö í dag og mældist sá sterkasti þá um 3 stig á Richter-kvarðanum.
Talið er líklegt að skjálftinn nú reynist sá stærsti í hrinunni en búast má við eftirskjálftum í kjölfarið.