Neytendasamtökin hafa kært til Neytendastofu vörusvik við sölu á ginsengi. Ástæðan eru kvartanir neytenda um að ginseng sem selt er sem „rautt kóreskt ginseng" hafi ekki þau áhrif sem ætla mætti að það myndi hafa.
Neytendasamtökin segja, á pökkunum komi fram „Royal Korean Ginseng, Premium Quality" og varan sé í umbúðum merktum fyrirtækinu Fæði fyrir alla ehf.
Einn þeirra sem kvartaði taldi ljóst að við framleiðslu á þessu ginsengi væri notað hvítt ginsengduft en ekki rautt eins og fullyrt er á umbúðum. Einnig hefur verið fullyrt við Neytendasamtökin að gæði á hvítu ginsengi sé lakara en á rauðu.
Vegna þessa ákváðu Neytendasamtökin að fá viðurkennda og faggilta þýska rannsóknarstofu til að rannsaka þetta. Segir á heimasíðu samtakanna, að niðurstöður séu afgerandi, með þremur rannsóknaraðferðum hafi verið staðfest í öllum tilvikum að um hvítt ginseng væri að ræða. Í niðurstöðum segir að greinilega komi fram að þau hylki sem rannsökuð voru innihalda hvítt ginsengduft.
Því óska Neytendasamtökin eftir því við Neytendastofu að dreifingaraðila verði bannað að markaðssetja eða merkja þessa vöru sem rautt ginseng, enda ljóst að um fölsun sé að ræða. Þess er jafnframt óskað að Neytendastofa hraði aðgerðum sínum.