Sýnilegur árangur af auknu eftirliti lögreglu

Stefán Eiríksson var á gangi um miðborgina ásamt Steinþóri Hilmarssyni, …
Stefán Eiríksson var á gangi um miðborgina ásamt Steinþóri Hilmarssyni, rannsóknarlögreglumanni og umsjónarmanns göngueftirlits lögreglunnar. mbl.is/Júlíus

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins var í eftirlitsgöngu um miðborgina er Fréttavefur Morgunblaðsins náði tali af honum í dag. Segir Stefán að aukinn sýnileiki lögreglunnar hafi skilað góðum árangri og að áfram verði unnið að því að auka sýnilega löggæslu á höfuðborgarsvæðinu enda falli það íbúum borgarinnar vel í geð.

Að sögn Stefáns jók lögreglan sýnileika sinn með auknu eftirliti um síðustu áramót er nýtt lögregluembætti tók til starfa. Segir Stefán að árangurinn sé augljós bæði á hegðun fólks og afbrotatíðni. Auk þess sem þetta auki öryggistilfinningu borgarbúa eins og lögreglan stefni að. Stefán segir að of snemmt sé að draga ítarlegar ályktanir af því hverju eftirlitið hafi skilað enn sem komið er.

„Lögreglan sendi nýverið frá sér skýrslu um afbrotatíðni og fyrir árin 2005 og 2006 og verður árangurinn í ár borinn saman við þær tölur sem þar birtast. En við sjáum mjög jákvæð merki í tölunum fyrir árið í ár. Til dæmis varðandi umferðina og umferðarslys."

Stefán bætir við að alvarlegum ofbeldisbrotum hafi fækkað í miðborginni þó alltaf sé eitthvað um ofbeldi þar. „Við erum að einbeita okkur að því að ná niður bæði alvarlegum umferðarslysum og alvarlegum ofbeldisbrotum og öðrum viðlíka brotum," sagði Stefán er hann rölti um götur miðborgarinnar nú síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert