Í tillögu að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2008, sem lögð var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs nú síðdegis, er gert ráð fyrir ríflega 2,2 milljarða króna rekstrarafgangi.
Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ er gert ráð fyrir margháttuðum gjaldskrárbreytingum, t.d. lækkun á leikskólagjöldum og vatnsskatti, hækkun á íþrótta- og tómstundastyrkjum, nýjum stöðugildum á sviði félagsþjónustu og byggingu þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða, íþróttamannvirki og skólahúsnæði. Rekstrarframlög til leikskóla- og grunnskólamála aukast um meira en 700 milljónir króna á milli ára samkvæmt áætluninni og verða 57% af skatttekjum bæjarins.
Heildartekjur Kópavogsbæjar árið 2008 eru áætlaðar rúmir 17 milljarðar króna. Þar af er áætlað að skatttekjur nemi tæpum 12 milljörðum króna. Þannig er gert ráð fyrir að heildartekjur árið 2008 verði um 2 milljörðum króna hærri en árið 2007 og hækki um 14% milli ára. Hækkunin byggist á spá um launaþróun, hagvöxt og fjölgun íbúa um rúmlega 1100 manns. Reiknað er með 10,4% hækkun útsvarstekna en útsvar verður óbreytt 13,03%.
Heildarfjárfestingar á árinu 2008 eru áætlaðar 6,9 milljarðar króna. Af því er áætlað að verja rúmum 1,3 milljörðum króna til byggingar á íþróttamannvirkjum, tæplega 1 milljarði til byggingar skóla og leikskóla, rúmum 600 milljónum króna til þjónustumiðstöðvar aldraðra í Boðaþingi, um 2,4 milljörðum króna í nýframkvæmdir gatna og um 1 milljarði króna í kaup á lóðum og kaup á húsnæði fyrir húsnæðisnefnd Kópavogs.
Meðal helstu breytinga á gjaldskrám og rekstri samkvæmt áætluninni má nefna áframhaldandi lækkun á leikskólagjöldum. Grunngjaldið verður um 15% lægra árið 2008, fer úr 2100 krónum í 1788 krónur á klukkustund og mánaðargjald fyrir 8 klukkustunda vistun úr 16.800 krónum í 14.300 krónur. Forgangsgjald lækkar úr 1323 krónum í 1250 krónur. Fæðisgjald hækkar um 5% en gjaldskrá dægradvalar verður óbreytt milli ára.
Heimgreiðslur til foreldra aukast samkvæmt áætluninni um 5000 krónur á barn á mánuði og verða 35 þúsund krónur.