Flutningaskipið Axel, sem strandaði við Hornafjarðarós í morgun, er komið af strandstað, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar. Axel gengur fyrir eigin vélarafli og er á leið til Berufjarðar þar sem áætlað er að skipið fari til hafnar.
Björgunarskipið Ingibjörg fylgir skipinu áleiðis þar til varðskip Landhelgisgæslunnar mætir skipunum og mun varðskipið fylgja Axel til hafnar. Enginn olíuleki virðist vera frá skipinu og dælur hafa við að dæla þeim sjó sem berst í skipið.
Flutningaskipið er með fullfermi af frosnum fiski og um 170 tonn af olíu voru talin vera um borð í skipinu. Skipstjóri Axels er íslenskur en aðrir í áhöfn eru frá A-Evrópuþjóðum.