Byggingarleyfi fellt úr gildi á Akureyri

Frá Glerártorgi á Akureyri
Frá Glerártorgi á Akureyri mbl.is/Skapti

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála á Akureyri hefur fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Glerártorg sem bæjarstjórn veitti 4. september sl. Hefur Akureyrarbær krafist eignarnáms á lóð sem fyrirtækið Svefn og heilsa er með á leigu og verður krafan tekin fyrir á morgun á fundi matsnefndar.

 Í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ kemur fram að í kjölfar gildistöku deiliskipulags á Glerártorgi vorið 2007 og útgáfu byggingarleyfa til SMI ehf. vegna viðbyggingar við Glertorg hefur verslunin Svefn og heilsa ehf. þrívegis kært byggingaleyfi á svæðinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þá kærði Svefn og heilsa ehf. jafnframt deiliskipulagið og krafðist þess að það yrði fellt úr gildi.

Þrívegis hefur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úrskurðað Akureyrarbæ í hag. Þannig úrskurðaði nefndin um gildi deiliskipulagsins 23. nóvember sl.

Þá vísaði úrskurðarnefnd frá tveimur kærum Svefns og heilsu ehf. sem vörðuðu byggingarleyfi vegna jarðvegsskipta, útmælinga og gerð sökkla sumarið 2007, þar sem nefndin taldi að framkvæmdirnar vörðuðu ekki lögvarða hagsmuni Svefns og heilsu ehf.

Í haust kærði svo Svefn og heilsa byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Glerártorg sem bæjarstjórn veitti 4. september sl. Úrskurður í því máli sem féll 23. nóvember sl. gekk hins vegar þvert á fyrri úrskurði um byggingarleyfi á sömu lóð.

Í úrskurðinum segir að þar sem Svefn og heilsa eigi enn óbein eignarréttindi í lóð skv. eldra deiliskipulagi, þar sem byggingarleyfið var veitt, ekki hafi verið gengið frá aðilaskiptum og Svefn og heilsa ehf. hafi ekki veitt samþykki sem sameigandi fyrir byggingarleyfinu þá verði að fella byggingarleyfið úr gildi.

Fyrir deiluskipulagsbreytingu áttu Svefn og heilsa ehf. leigulóðarréttindi á hluta af því svæði sem samkvæmt nýju deiliskipulagi varð að Gleráreyrum 1. Þar sem ekki tókust samningar með aðilum um bætur fyrir lóðarskerðingu krafðist Akureyrarbær eignarnáms vegna umræddra lóðarréttinda.

Í eignarnámsbeiðni er þess krafist að bærinn fái m.a. umráð þeirra lóðarréttinda sem um ræðir. Matsnefndin mun taka þá beiðni fyrir á morgun og um leið og sú beiðni hlýtur afgreiðslu matsnefndarinnar mun byggingarleyfi verða gefið út að nýju, samkvæmt tilkynningu frá Akureyrarbæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert