Ekkert eftirlit er lengur með ferðum kafbáta við Ísland, eftir að P-3 Orion eftirlitsflugvélar Bandaríkjanna fóru frá Keflavík í febrúar 2004. Norska blaðið Aftenposten greindi frá því í gær að rússneskir kafbátar hefðu á ný sést við Noregsstrendur eftir langt hlé.
„Rússar hafa fyrst og fremst verið með sína kafbáta í Norður-Íshafinu nálægt sinni heimahöfn og æfingum þar. Nú eru þeir komnir út í Norður-Atlantshafið og það sætir tíðindum," segir Þórir Ibsen, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Aftenposten sagði frá því í gær að við eftirlitsflug norska flughersins hefði sést til rússneskra kafbáta innan í norskrar lögsögu í Norður-Atlantshafi. Norska blaðið segir norska herinn eingöngu geta sinnt kafbátaeftirliti úr lofti með P-3 Orion kafbátaleitarvélum sínum. Í smíðum eru nýjar freigátur sem geta sinnt kafbátaeftirliti og verða þær tilbúnar eftir rúm þrjú ár.