Fjögur ný frumvörp um leik-, grunn- og framhaldsskóla voru í gær kynnt þingflokkunum. Frumvörpin mynda eina heild og er eitt helsta markmið með þeim að draga úr miðstýringu og auka sveigjanleika milli skólastiga. Þannig á að tryggja heildstætt skólakerfi frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla. Frumvörpin eru afar viðamikil og liggur margra ára vinna að baki þeim.
Meðal helstu nýmæla í frumvörpunum er að lögð er til breyting á einingakerfi framhaldsskóla og að tekin verði upp fræðsluskylda til átján ára aldurs. Einingakerfið sem lagt er til að tekið verði upp nefnist ECTS (e. European Credit Transfer and Accumulation System) sem er sama kerfi og notað er á háskólastigi. Þar er ekki miðað við fjölda kennslustunda heldur vinnuframlag nemenda. Líkt og nafnið gefur til kynna er um evrópskt kerfi að ræða sem ætti að gera færslu á einingum milli skóla og milli landa mun einfaldari en verið hefur. Færsla umframeininga úr framhaldsskóla yfir í háskóla ætti einnig að einfaldast.
Þá er lagt til að tekin verði upp fræðsluskylda til að tryggja rétt nemenda til skólavistar og náms. Ekki er um að ræða skólaskyldu heldur frekar að ríkið skuldbindi sig til að tryggja menntun og verði þá ekki hægt að vísa neinum frá.
Í framhaldsskólafrumvarpinu er einnig rík áhersla lögð á að auka veg starfsnáms og verknáms. Meðal annars er lagt til að stúdentspróf á bóknámsbrautum og verknámsbrautum verði jafngild. Einnig er lagt til að kjarnagreinum verði fækkað niður í íslensku, ensku og stærðfræði og að einstaka skólum verði veitt aukið svigrúm til mótunar námsbrauta.