Utanríkisráðherra segir að Íslendingar eigi að verja meiru fé til þróunarmála um leið og hann fagnar því að lífskjör á Íslandi séu þau bestu í heiminum samkvæmt því sem fram kemur í nýrri Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna.
Reiknuð eru lífskjör í 177 löndum í heiminum og í ár hefur Ísland, sem var í öðru sæti í fyrra, skotist fram úr Norðmönnum sem hafa vermt efsta sætið sl. sex ár.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að það séu mikil forréttindi að fá að fæðast, lifa og starfa á Íslandi en um leið leggi þetta miklar skyldur á herðar Íslendingum.
Hún segir að Vesturlönd verði að axla sína ábyrgð bæði með auknum framlögum til þróunaraðstoðar og það séu Íslendingar nú þegar að gera. Okkar framlög séu að aukast verulega. Hún bendir á að fram komi í skýrslunni að það er fátækasta fólk heims sem verður verst fyrir barðinu á loftslagsbreytingunum. „Við eigum þar auðvitað heilmikið hluta að máli með okkar lífsháttum eins og aðrir Vesturlandabúar.“
Vísitalan fyrir þróun lífskjara er mælikvarði á hversu vel hefur tekist að koma upp þeim þremur meginstoðum sem eru forsendur þróunarinnar. Þær eru: meðalaldur, menntun og lífskjör. Við mælingu þessara þátta eru notaðar þrjár breytur: meðalaldur, menntunarstig (lestrarkunnátta fullorðinna og skólaganga á öllum stigum) ásamt vergri landsframleiðslu á íbúa (umreiknuð í kaupmátt en ekki eftir gengi gjaldmiðla).