Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að þótt lífskjör mælist þau bestu í heimi hér á landi, þá setji það ekki sérstaka pressu á Ísland í alþjóðasamfélaginu í umhverfismálum né öðrum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna birti í dag árlegan lista sinn þar sem mat er lagt á lífsgæði í 177 ríkjum, svo sem ævilíkur, menntunarstig og verga landsframleiðslu á mann. Ísland tók við fyrsta sæti listand af Norðmönnum, sem setið höfðu í fyrsta sæti í sex ár.
Í fréttum útvarps sagði Geir að þótt Ísland tróni efst á listanum þá sé hann aðeins mælikvarði, sem hafi takmarkaðan tilgang, nema helst þann að gefa vísbendingu um það með hverjum Íslendingar flokkist.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra sagði í viðtali við mbl.is fyrr í dag að það væru forréttindi að fæðast, lifa og starfa á Íslandi en að það legði um leið miklar skyldur á herðar Íslendingum. Þá sagði Ingbjörg að Íslendingar ættu að verja meiru til þróunarmála, líkt og raunar væri verið að gera, og benti hún á að það væri fátækasta fólk heims sem yrði verst fyrir barðinu á loftslagsbreytingum.