Hætt við að selja Gagnaveitu Reykjavíkur

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur.

Bryn­dís Hlöðvers­dótt­ir, stjórn­ar­formaður Orku­veitu Reykja­vík­ur, kynnti á stjórn­ar­fundi í dag til­lögu um að fallið verði frá fyrri ákvörðun um að leita til­boða í Gagna­veitu Reykja­vík­ur, dótt­ur­fé­lag Orku­veit­unn­ar.

Í grein­ar­gerð með til­lög­unni seg­ir að nú­ver­andi meiri­hluti sé and­víg­ur sölu fyr­ir­tæk­is­ins og nauðsyn­legt sé að taka ákvörðun um að hætta und­ir­bún­ingi sölu til þess að eyða óvissu jafnt meðal starfs­manna, viðskipta­vina sem og þjón­ustuaðila.

Gagna­veita Reykja­vík­ur er sér um lagn­ingu og rekst­ur ljós­leiðara­nets í fjölda sveit­ar­fé­laga. Gagna­veit­an var stofnuð sem svið inn­an Orku­veitu Reykja­vík­ur 1. janú­ar 2005 en var breytt í hluta­fé­lag 1. janú­ar 2007. Viðskipta­vin­ir Gagna­veit­unn­ar eru bæði fyr­ir­tæki og heim­ili á veitu­svæðum Orku­veit­unn­ar.

Bryn­dís seg­ir í til­kynn­ingu frá OR, að það sé skoðun sín, að starf­semi Gagna­veit­unn­ar sé grunnþjón­usta og falli afar vel að ann­arri veit­u­starf­semi Orku­veit­unn­ar. Áætlan­ir sýni, að rekst­ar­horf­ur séu góðar og það mat, sem gert var á verðmæti fyr­ir­tæk­is­ins í vor gefi til kynna að verðmætið auk­ist til muna á næstu árum og veru­lega um­fram þá fjár­fest­ingu sem framund­an sé.

Á fundi stjórn­ar Orku­veitu Reykja­vík­ur þann 4. júní sl. var samþykkt að fela fyr­ir­tækja­sviði Glitn­is hf. að verðmeta Gagna­veitu Reykja­vík­ur ehf. og leita eft­ir til­boðum í hluta­fé fé­lags­ins, allt eða meiri­hluta þess. Verðmat var fengið frá Glitni og Lands­banka Íslands en sölumeðferð hef­ur ekki haf­ist.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert