Rætt var utan dagskrár á Alþingi í dag, um fíkniefnavandann og ráðstafanir af hálfu stjórnvalda til að sporna gegn honum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varaþingmaður VG, sem hóf umræðuna, sagði m.a. að Íslendingar stæðu frammi fyrir örvandi fíkniefnafaraldri.
Sagði Guðfríður Lilja, að hinar raunverulegu varnir Íslands væru að tryggja að nægt fjármagn væri til staðar fyrir þær forvarnir, sem rannsóknir og reynslan sýndu að virkaði gegn fíkniefnaneyslu og þau meðferðarúrræði, sem færasta fólk hér á landi beitti sér fyrir.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fór m.a. yfir þær aðgerðir, sem fyrirhugaðar væru af hálfu stjórnvalda í forvörnum og meðferð. Sagði Geir m.a. að alþjóðlegt umhverfi kallaði á breytta nálgun í vímuefnavörnum og samfara heilsueflingu og forvörnum þyrfti að herða löggæslu og beita nýjum aðferðum. Hefðu löggæsluyfirvöld gripið til aðgerða til að mæta aukinni hörku fíkniefnasala.
Geir sagði, að sérsveit lögreglunnar hefði verið efld, m.a. í þeim tilgangi að gera lögreglu kleift að takast á við fíkla, sem stundum væru ofbeldisfullir og beittu jafnvel vopnum. Þá ynni greiningardeild lögreglunnar við að kortleggja fíkniefnaheiminn og auðvelda götueftirlitinu að rata um krákustíga hans, með það m.a. að markmiði, að forða fólki frá að lenda í klóm fíkniefnasala.
Geir sagði, að hvetja þyrfti fólk, ekki síst unga fólkið, til jákvæðrar breytni. Þess vegna þyrfti að efla starf frjálsra félagasamtaka og treysta samstarf þeirra við ýmsar félagslegar stofnanir. Þá benti Geir m.a. á, að mikill mælanlegur árangur hefði náðst frá árinu 1997 við að draga úr áfengisneyslu grunnskólabarna, reykingum og neyslu hass. Nú þyrfti að huga að næstu aldursflokkum fyrir ofan og hefði m.a. verið kynnt verkefni, sem ætti að stuðla að heilsueflingu framhaldsskólanema.
Geir sagði, að þessi mál væri vandamál, sem allt þjóðfélagið væri að glíma og allir yrðu að taka höndum saman um að freista þess að ná þar árangri, „vegna þess að öflin, sem barist er við á þessu sviði, svífast einskis, eins og við vitum."