Mánaðar fangelsi fyrir að stela vodkapela

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann í 30 daga fangelsi fyrir að stela vodkapela í vínbúð ÁTVR í Hveragerði í gær. Hann var einnig dæmdur til að greiða ÁTVR bætur sem nema andvirði pelans, eða 2370 krónur.

Lögreglunni á Selfossi barst tilkynning um hádegi í gær um mann, sem hafði stungið vodkapela inná sig í vínbúðinni í Hveragerði. Þegar lögregla kom á staðinn hafði maðurinn fengið far með bifreið áleiðis til Reykjavíkur.

Lögreglumennirnir héldu á eftir og náðu að stöðva bílinn á Hellisheiði. Þar sat sá sem grunaður var um þjófnaðinn með pelann sem hann hafði nánast klárað úr. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu þar sem hann svaf úr sér áfengisvímuna.

Í morgun var hann yfirheyrður og játaði hann brot sitt. Þegar í stað var gefin út ákæra og maðurinn leiddur fyrir dómara sem kvað upp dóm.

Maðurinn hefur oft áður verið dæmdur fyrir ýmis brot, svo sem þjófnað, nytjastuld, ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert