Siðanefnd vísar frá máli vegna bloggsíðu

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur vísað frá máli, sem kært var til hennar vegna ummæla á bloggsíðu. Ástæða frávísunarinnar var sú, að kæran barst löngu eftir kærufrest. Samkvæmt upplýsingum frá Blaðamannafélaginu mun vera um að ræða fyrsta siðanefndarúrskurðinn, sem fjallar um einkablogg blaðamanns.

Um var að ræða bloggfærslu á síðu, sem Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi blaðamaður Fréttablaðsins og núverandi blaðamaður 24 stunda, var skráður fyrir. Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, kærði til siðanefndarinnar eftirfarandi klausu, sem birtist á bloggsíðunni í febrúar á þessu ári:

„Stundum get ég verið hamingjusamur. Og bersýnileg eiturlyfjaneysla Rannveigar Rist, álfrúarinnar, gleður mig óendanlega mikið. Eða ég gef mér að hún sé undir áhrifum hennar vegna því annars daðrar hún líklega við að vera þroskaheft.“

Undir sömu færslu er að finna mynd af Rannveigu skera sneið af tertu. Í myndatexta segir orðrétt: „Álfrúin sker sér sneið af contalgen tertu.“

Rannveig fór fram á undanþágu frá kærufresti enda hafi hún ekki vitað af umfjölluninni fyrr en 10. október. Siðanefnd hafnaði því að annað ætti við um birtingu á netinu en í hefðbundnum fjölmiðlum, enda væru flestir fjölmiðlar einnig aðgengilegir þar lengi eftir fyrstu birtingu.

Siðanefndin tók hins vegar eftirfarandi fram:

„Framangreind kærð ummæli fela í sér dómgreindarskort. Hins vegar telur siðanefndin að ummælin séu sett fram sem persónuleg skoðun eða tjáning kærða sem hann eigi lögverndaðan rétt til en beri einnig ábyrgð á. Verði hann að svara fyrir þau eftir atvikum, án þess að þau tengist beint störfum hans sem blaðamanns. Fjölmiðlar hljóti að hafa reglur sem taki á málum sem þessum, enda fer illa saman að skrifa hlutlægar fréttir á daginn um menn og málefni sem sami blaðamaður bloggar frjálslega um á kvöldin á netinu."

Úrskurðurinn í heild



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert