Nokkrir farþegar í ferð Heimsferða til Kúbu, sem skipta þurftu um flugvél í Halifax vegna bilunar í flugvél hafa enn ekki fengið hluta af handfarangri sínum. Þá hafa farþegar lýst undrun sinni á því að flugvélinni hafi verið bilaðri flogið frá Kúbu, Tómas J. Gestsson, hjá Heimsferðum, segir ástæðuna þá að dæld á vélinni hafi ekki uppgötvast fyrr en í Halifax.
Tómas segir rétt að einhverjir farþegar hafi ekki fengið allan handfarangur sinn, og er þar ekki um að ræða almennan handfarangur heldur fríhafnarvarning, sem varð eftir í vélinni í Halifax.
Vélin mun vera væntanleg til Íslands og bendir Tómas farþegum sem ekki fengu allan farangur sinn á að þeir geti hringt í flugfélagið JetX í fyrramálið í síma 517-6000 og fengið þá frekari upplýsingar.
Flugvélin var kyrrsett í Halifax þegar í ljós kom, þegar þjónustuaðili sinnti vélinni, að dæld var á vélinni. Tómas segir að endanleg skýrsla um atvikið hafi ekki borist, en að líklega sé skýringin sú að ekið hafi verið utan í vélina á flugvellinum á Kúbu, og að viðkomandi hafi ekki látið vita af atvikinu.
Ekki var því vitað um dældina þegar farið var af stað frá Kúbu, en vélin kyrrsett um leið og hún uppgötvaðist.
Einn farþegi í ferð Heimsferða til Kúbu gagnrýnir hve farþegar fengu litlar upplýsingar þegar þeir biðu í að minnsta kosti 6 stundir í flugstöðinni í Halifax í Kanada á laugardagsmorgun. Ragnar Árnason, sem var í ferðinni ásamt eiginkonu sinni, segir að upplýsingar um stöðu mála hafi verið af afar skornum skammti.