Þingmenn gleðjast yfir góðum árangri

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Sverrir

Þingmenn bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu á Alþingi sögðu í dag, að ástæða væri til að gleðjast yfir því að Ísland væri komið í efsta sæti á lista Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um lífskjör. Þingmenn sögðu þó einnig ljóst, að velferðinni hér á landi væri ekki jafnt skipt og mikið væri ógert í að jafna lífskjör innanlands.

Guðfinna Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók málið upp í byrjun þingfundar og sagði að þingmenn ræddu oft í þingsalnum um það sem miður færi en rétt væri að staldra við þegar svona upplýsingar birtust.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að þetta væru ánægjulegt tíðindi þótt Íslendingar hefðu í mörg ár verið ofarlega á þessum lista. Þar væri ekki eingöngu mældur kaupmáttur eða fjárhagslegur hagur heldur önnur atriði sem hafa á velmegun viðkomandi þjóðar. Þetta væri ánægjulegt en jafnframt áskorun á Íslendinga að halda áfram að standa sig vel.

Geir benti einnig á þær fréttir í morgun, að matsfyrirtækið Moody's hefði ákveðið að breyta ekki lánshæfismatinu á ríkissjóði Íslands en Moody's hefði haft Ísland í hæsta flokki um nokkurra ára skeið. Sagði Geir að þessi tíðindi ættu að vera, þeim umhugsunarefni, sem væru að reyna að tala niður allan árangur, sem náðst hefði í þessu landi. Þótt mörg vandamál væru óleyst væru þetta vísbendingar um að Íslendingar séu þrátt fyrir allt á réttri leið.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokks, sagði að flokkurinn hefði lagt grunn að þessari stöðu með 12 ára ríkisstjórnarsamstarfi. Sagðist hann sérstaklega vilja þakka VG fyrir að hafa skammast svona lengi yfir slæmri stöðu Íslands og það hefði haft góð áhrif á þá, sem vorum að vinna að framgangi mála.

Guðni sagði, að lykillinn að þessari stöðu væri næg atvinna, aðgangur að heilbrigðisþjónustunni og aðgangur að menntun. Hann hvatti hins vegar til þess að Íslendingar mikluðust ekki af árangrinum enda væri vandi að verja hann.

Sagði Guðni einnig, að stefna framsóknarmanna væri að Íslendingar ættu að eiga  nóg til að bíta og brenna en hafi jafnframt í huga, að hamingjan komi ekki aðeins af peningum.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins sagði fullt tilefni til að gleðjast yfir góðum árangri. Það hefði sú atvinnustefna, sem rekin hafi verið undanfarið, stuðlað að góðum árangri með því að nýta auðlindir lands og sjávar eins og gert hefði verið. 

Jón Magnússon, flokksbróðir Kristins, benti hins vegar á, að tollstjóri hefði upplýst á þingnefndarfundi í morgun að 5000 árangurslaus fjárnám hefðu verið gerð á árinu á hans innheimtusvæði. Þá hefðu biðraðir hjá hjálparstofnunum   lengst verulega og fólk ætti ekki fyrir mat út mánuðinn. Kominn væri afgerandi velferðarhalli í þjóðfélaginu, sem taka yrði á.

Og Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurði hvort  menn væru orðnir gersamlega blindir á Alþingi og sagði að það væri dónaskapur gagnvart öldruðum og öryrkjum og ungu fólki, sem væri sligað af vaxtaokrinu, að tala eins og menn hefðu gert í umræðunni. Sagði Grétar Mar að sjávarbyggðirnar væru að tæmast og sveitarfélögin skuldsett sem aldrei fyrr.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði ljóst, að Íslendingar nytu þeirra forréttinda að fæðast og lifa í landi þar sem lífskjör væru hvað best. Hér væri barnadauði lítill, lífslíkur miklar, barnadauði lítill, staða kvenna góð.

Þetta legði Íslendingum einnig ábyrgð á herðar, ekki síst í loftslagsmálum en loftslagsbreytingar hefðu mikil áhrif á kjör í heiminum. Þar gætu Íslendingar lagt mikið að mörkum, m.a. með verkefnum í jarðhita og einnig innanlands.

Hún benti einnig á, að Íslendingar ættu  mikið eftir ógert við að jafna lífskjör innanlands. 

Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, benti á að Ingibjörg Sólrún hefði sagt fyrir kosningar, að allt væri á afturfótunum og endurreisa þyrfti velferðarkerfið. Nú segði hún að Íslendingar væru forréttindafólk.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, sagði að tölur SÞ byggðust á meðaltali en hér hefði fjölgað auðmönnum. Þá benti hún m.a. á, að í skýrslu Þróunarstofnunar SÞ kæmi fram að hvergi á byggðu bóli væri notað eins mikið rafmagn og hér á landi og gera þyrfti  orkusparnaðarátak í raforkumálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert