300.000 íslenskukennarar virkjaðir

Alþjóðahús, Alþýðusamband Íslands, Efling-stéttarfélag, SVÞ-samtök verslunar og þjónustu og VR hafa tekið höndum saman og látið gera barmmerki til að virkja íslenskukennara landsins gagnvart erlendu starfsfólki. Átakið hefst með fundi í Alþjóðahúsi á morgun, miðvikudaginn 28. nóvember, kl. 11:30.

Í tilkynningu segir að umræða um íslenskukunnáttu þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hafi verið hávær á undanförnum misserum. Erlendum starfsmönnum fjölgar ört í ýmsum þjónustustörfum, eins og í verslun, á hjúkrunarheimilum, í skólum og víðar. Sérstaklega hefur vakið athygli umræða um íslenskukunnáttu erlendra starfsmanna í verslunum landsins. Afgreiðslufólki sem talar enga eða litla íslensku fjölgar ört vegna þess að verslunum hefur gengið illa að manna að fullu störf í afgreiðslu með innlendu launafólki. Merkjunum er ætlað að minna á að það tekur tíma til að læra nýtt tungumál, að það verður að sýna þolinmæði og jákvæðni og hvatning sakar ekki.

Jafnframt er minnt á að íslenskan er jafnvel erfið þeim sem eiga hana að móðurmáli, þannig að fólk þarf að sýna þeim skilning sem eru að læra íslensku. Allir geta lagt eitthvað af mörkum; nágrannar, vinnufélagar, bekkjarfélagar, viðskiptavinir, sessunautar og aðrir geta hjálpað til í íslenskunáminu.

Barmmerkin eru með eftirfarandi áletrunum:
Ég er að læra íslensku
Íslenska er mínar ær og kýr
Tölum saman; Kenndu mér að ...
Er íslenska ekkert mál?
Ég tala fimm tungumál
Ég tala smá íslensku
Hvernig á að fallbeygja kýr?

Íslenskukennurum landsins er bent á að tala ekki ensku að fyrra bragði, að tala íslensku nema beðið sé um annað; að gefa sér tíma til að hlusta og eiga samræður á íslensku þrátt fyrir takmarkaðan orðaforða viðmælanda; ef viðmælandi skilur ekki þá er ráð að endurtaka og tala hægar eða að breyta um orðalag og nota einfaldari orð en forðast að nota barnamál.
Barmmerkjunum verður dreift til aðildarfélaga ASÍ og aðildarfyrirtækja SVÞ-samtaka verslunar og þjónustu um allt land og til símenntunarmiðstöðva. Þá verður hægt að hafa samband við Alþjóðahúsið, ASÍ, Eflingu eða VR til að fá fleiri merki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert