Lyf íslenska samheitalyfjaframleiðandans Actavis eru töluvert ódýrari í Danmörku en á Íslandi. Þegar verð á þremur algengum lyfjum er borið saman milli landanna kemur í ljós að munurinn er allt að tífaldur. Ingunn Björnsdóttir, doktor í félagslyfjafræði, segir skort á samkeppni á samheitalyfjamarkaði á Íslandi skýra muninn. „Aðrir samheitalyfjaframleiðendur virðast telja stöðu Actavis það sterka á Íslandsmarkaði að þeir reyna ekki að koma sinni framleiðslu á framfæri," segir hún. Aðspurð um það hvort Íslendingar líði í rauninni fyrir það að eiga íslensk lyfjafyrirtæki svarar Ingunn: „Að þessu leytinu til gæti maður látið sér það detta það í hug."