Almennar launahækkanir ekki réttlætanlegar

mbl.is

Samtök atvinnulífsins telja að almennar launahækkanir séu ekki réttlætanlegar við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu. Heldur sé viðfangsefni kjarasamninga nú að hækka lágmarkslaun umtalsvert og koma á launaþróunartryggingu fyrir þá sem hafa setið eftir í launaskriðinu. Það sé gert með því að skoða hvern einstakling fyrir sig. Þetta kom fram í máli Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á fundi um komandi kjarasamninga.

Að sögn Vilhjálms hefur vinnumarkaðurinn verið á fleygiferð undanfarið og laun hafa hækkað um tveggja stafa tölu. Því segir hann að það sé umhugsunarefni hvort það hafi eitthvað upp á sig að allir fái sömu hækkanir. Sjáum ekki hvers vegna þeir sem hafa kannski fengið 15% hækkun á undanförnum misserum eigi að fá 3-5% hækkun í kjarasamningum nú um áramót.

Segir Vilhjálmur eðlilegt að um almennar launahækkanir sé að ræða þegar lítið er að gerast í atvinnulífinu en það gildi bara alls ekki nú á Íslandi. „Við segjum líka að með því að fara þannig í málið þá séum við að ná fram hámarkssveigjanleika út úr atvinnulífinu," segir Vilhjálmur og bætir við að mikil óvissa um þróun og horfur í efnahagslífinu á næstu árum meðal annars vegna breytinga í útflutningsgeiranum.

Ný útflutningsgrein hafi tekið við og sé orðin stærri en allar aðrar útflutningsgreinar Íslendinga, það er fjármálageirinn. „Staðan á erlendum fjármálamörkuðum ræður því hvernig okkur mun ganga á næsta árum. Ef það kemur uppgangur þá skipta almennar launahækkanir svo litlu máli því vinnumarkaðurinn lýtur eigin lögmálum," segir Vilhjálmur.

Að sögn Vilhjálms er það viðfangsefni kjarasamninga nú að hækka lágmarkslaun umtalsvert og þá svipað og gert var í júní í fyrra er taxtar voru hækkaðir um 15 þúsund krónu. Segir hann að það yrði veruleg kjarabót fyrir þá sem eru með lægstu launin, sérstaklega ef þessar tvær hækkanir eru lagðar saman.

Taxtahækkun í kjarasamningum nýtist einstaklingum sem fá laun samkvæmt launatöxtum kjarasamninga. Með þessu eru taxtar færðir nær greiddu kaupi. Að sama skapi eigi aukagreiðslur og yfirborganir að færast að hluta inn í launataxta.

Vilhjálmur gerði launaþróunartryggingu að umtalsefni á fundinum. Sagðist hann reikna með því að launaþróunartrygging muni skila því til launþega að enginn geti sagt eftir launatímabilið að hann hafi lækkað hvað varðar kaupmátt launa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert