Banaslys varð á Suðurlandsvegi nærri Litlu kaffistofunni í dag þegar vörubíll og fólksbíll rákust saman. Svo virðist sem fólksbíllinn hafi farið yfir á rangan vegarhelming og lent á vörubílnum sem kom á móti. Ökumaður fólksbílsins, sem var að sögn lögreglu eldri maður, lést við áreksturinn. Hann var einn í bílnum.
Suðurlandsvegur er enn lokaður og verður um sinn meðan rannsókn stendur yfir og svo hreinsun á vettvangi. Umferð er hleypt um um gamla Suðurlandsveginn austan við Sandskeið. Vegurinn var blautur þegar slysið átti sér stað en engin hálka.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu er orsök slyssins ókunn en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fer með rannsókn og hefur kallað sér til aðstoðar sérfræðinga til að mæla upp vettvang, rannsaka ökutækin og reikna út ökuhraða. Starfsmenn Rannsóknarnefndar umferðaslysa kom á vettvang og fara með sjálfstæða rannsókn.
Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem voru vitni að slysinu, aðdraganda þess eða búa yfir einhverjum upplýsingum sem að gagni geta komið að hafa samband í síma 480 1010.