„Á Loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí nú í desember gefst ríkjum heims fágætt tækifæri til að stilla saman strengi sína og hefja víðtækar samningaviðræður um hnattræna lausn á þessum hnattræna vanda. Þar má enginn ganga úr skaftinu. Og allra síst ríkið á toppnum, Ísland. Okkar hlutskipti hlýtur að vera að bretta upp ermarnar og bjóða fram krafta okkar til lausnar á vandanum. Við erum einn tíuþúsundasti af loftslagsvandanum en við gætum verið miklu stærri hluti af lausninni. Við höfum gnótt þekkingar á nýtingu á vatnsorku og jarðvarma og getum verið leiðandi á heimsvísu hvað jarðhitann varðar. Við getum verið í fremstu röð ríkja heims í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.“ Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra m.a. í gær er kynntar voru í Háskóla Íslands niðurstöður Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem nú er helguð baráttunni við loftslagsbreytingar.