Fækkar á langlegudeild skipanna í Bolungarvík

Kristina Logos er enn í Bolungarvíkurhöfn.
Kristina Logos er enn í Bolungarvíkurhöfn. mynd/bb.is

Togurunum Geysi RE-82 og Páli á Bakka ÍS-505 var siglt út úr Bolungarvíkurhöfn í gær áleiðis til Reykjavíkur þar sem þeir fara í niðurrif. Mikil ánægja ríkir í Bolungarvík vegna þessa, enda losnar um pláss við höfnina og ekki þarf lengur að óttast þau áhrif sem tæring skipanna getur haft í för með sér.

Kristina Logos er þó enn í langlegu í höfninni, en togarinn, sem er í eigu Olís, hefur fengið að ryðga við margar hafnir undanfarin ár. Með skipunum fór góður þónokkuð af brotajárni, en að sögn Gríms Atlasonar bæjarstjóra er nóg til af slíku í Bolungarvík.

„Það er greinilegt að langlegugjaldið sem við settum á er að virka. Við höfum rukkað eigendur þessara skipa um hærra hafnargjald, líkt og gert er hjá Ísafjarðarbæ og fleiri sveitarfélögum. Mér skilst að Kristina Logos eigi að fara bráðlega, og þá reynum við að senda með henni meira brotajárn,“ segir Grímur.

Skipin Kristina Logos og Geysir hafa legið í Bolungarvíkurhöfn um árafjöld og ryðgað. Geysir hefur samkvæmt upplýsingum blaðsins ekki hreyfst í hátt í áratug, en hann var áður í eigu Básafells hf., og Kristina Logos hefur ekki hreyfst í að minnsta kosti fjögur ár, eða ekki síðan skipið var slegið Olís á uppboði í júní 2003.

Á sínum tíma fengust þær upplýsingar hjá Olís að kaupin á skipinu hefðu einungis verið til þess fallin að vernda hagsmuni Olís og að til stæði að selja skipið aftur sem allra fyrst, en af því hefur sem sagt ekki orðið. Þar áður hafði Kristina Logos reyndar fengið að ryðga við Reykjavíkurhöfn, frá árinu 2000-2002 þegar það var flutt vestur.

Páll á Bakka hefur borið mörg nöfn í gegnum tíðina en hann var smíðaður árið 1971 í Garðabæ fyrir Fiskiðjuna Freyju hf. á Suðureyri. Þá hét hann Trausti ÍS-300. Áður en hann var seldur til Bolungarvíkur frá Ísafirði hét hann Baldur Árna ÞH-50 og var í millitíðinni búinn að skipta oft um eigendur og nöfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert