Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til, að framlag til byggingar hátæknisjúkrahúss á lóð Landspítala lækki á næsta ári um 700 milljónir króna og verði 1 milljarður. Segir nefndin ljóst, að framkvæmdir mun ekki fara eins hratt af stað og áformað var í fyrri áætlun.
Þá leggur nefndin til þess að veitt verði fé til ýmissa sjúkrahúsa til að gera stjórnendum þeirra kleift að reka stofnanirnar innan fjárheimilda.
Þannig gerir nefndin tillögu um 200 milljóna króna fjárveitingu til að styrkja núverandi rekstur Landspítala og kemur framlagið til viðbótar 820 milljóna króna hækkun rekstrargrunns í fjárlagafrumvarpinu og tillögu um 1800 milljóna fjárveitingu í fjáraukalagafrumvarpi 2007.