Grunur leikur á að upphæðir sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt út samkvæmt fölsuðum reikningum frá tannlækni á Suðurnesjum geti numið allt að 200 milljónum síðustu þrjátíu ár, framreiknað til núvirðis. Lögreglan á Suðurnesjum hefur rannsakað 17 reikninga tannlæknisins frá í september í fyrra og gerir enn. Ekki fæst uppgefið hve langt aftur rannsóknin nær eða hve mörg mál eru tekin fyrir. Ólíklegt er að sannanir um langvarandi svik gegnum tannlæknareikninga komi nokkru sinni allar fram þar sem stór hluti meintra brota er fyrndur.
Þótt tannlæknirinn hafi ekki verið kærður til lögreglu fyrr en í september í fyrra, eru fjórtán ár síðan grunsemdir vöknuðu í TR um að ekki væri allt með felldu.
Handahófsdæmi Tryggingastofnunar sýna að þriðja hver viðgerð á reikningum sem færð var á sjúkratryggða einstaklinga var tilhæfulaus. TR sýnast svikin kerfisbundin og sama kerfið notað ár eftir ár.