Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, opnaði í dag vetnisstöðina við Vesturlandsveg. Af þessu tilefni afhenti VistOrka jafnframt formlega 10 vetnisbíla til nýrra eigenda - Orkuveitu Reykjavíkur, bílaleigunnar Hertz og Landsvirkjunar. Þetta er sagt í fyrsta skipti í heiminum sem vetnisstöð er opnuð almenningi með sama hætti og hefðbundin eldsneytisstöð.
Jafnframt verður þetta í fyrsta skipti sem bílaleigubílar sem ganga fyrir vetni munu standa almenningi til boða, en þrír vetnisbílanna verða bílaleigubílar hjá Hertz.
Enduropnun vetnisstöðvarinnar markar upphaf á nýju vistverkefni sem VistOrka og Íslensk NýOrka standa að og kallað er SMART-H2 (Sustainable Marine and Road Transport, Hydrogen in Iceland). Markmið SMART-H2 er að koma 25-40 vetnisbílum í umferð hérlendis fyrir árslok 2009.
Vetnisstöðin var fyrst opnuð árið 2003 og var sérstaklega hönnuð fyrir vetnisstrætisvagnaverkefnið, stöðin hefur nú verið endurhönnuð til að þjónusta hefðbundna fólksbíla sem ganga fyrir vetni. Rekstur vetnisstöðvarinnar næstu árin verður í höndum Skeljungs í samstarfi við Shell Hydrogen.
Nýju vetnisbílarnir eru Toyota Prius bifreiðar sem upphaflega voru smíðaðir af Toyota en hefur verið breytt í vetnistvinnbíla. Orkuveita Reykjavíkur hefur keypt 4 bíla, bílaleigan Hertz 3 bíla og Landsvirkjun 2 bíla.