Félagið Istorrent, sem rekið hefur vefinn torrent.is, segist telja að lögbann, sem rétthafasamtök kröfðust á vefinn, verði fellt úr gildi þegar dómari fái tækifæri til að kynna sér málið en reka þarf mál fyrir dómstólum til að fá lögbannið staðfest.
Embætti sýslumannsins í Hafnarfirði féllst fyrir rúmri viku á kröfu fjögurra rétthafasamtaka um að setja lögbann á torrent.is. Hefur vefurinn legið niðri síðan.
Í tilkynningu frá Istorrent ehf. er þeirri skoðun lýst, að krafa gerðarbeiðenda eigi ekki við rök að styðjast og hafi einungis náð fram að ganga vegna þess að félaginu var ekki gefið tækifæri til þess að kynna sér málatilbúnað gegn sér og hrekja þær fullyrðingar sem þar komi fram.
Þá sé lögbannið víðtækara en nauðsyn var á til þess að stöðva meinta brotastarfsemi og hvíli á einhliða og ósönnuðum fullyrðingum gerðarbeiðenda. Forráðamenn Istorrents segjast hafa fulla trú á því að dómstólar muni komast að réttri og réttlátri niðurstöðu og fella lögbannið úr gildi. Búist sé við því að málið taki einhvern tíma í afgreiðslu og verði kostnaðarsamt.
Í tilkynningunni segir einnig, að málflutningur gerðarbeiðanda í fjölmiðlum hafi verið mjög ónákvæmur. Þannig sé rangt, að lögregla hafi sótt Svavar Lúthersson, framkvæmdastjóra Istorrents eða hann verið færður til yfirheyrslu. Hið rétta sé að lögregla hafi ekki ennþá talið ástæðu til að grípa til aðgerða í þessu máli og þessvegna telji SMÁÍS, STEF og önnur rétthafasamtök sig knúin til þess að fara í lögbannsmál.