Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að núverandi réttindakerfi á Íslandi framleiði öryrkja og að SA og verkalýðsforystan hafi að undanförnu rætt um möguleika á að koma á áfallatryggingum.
Að sögn Vilhjálms kostar hver öryrki samfélagið 8 milljónir króna á ári en á hverju ári séu 1.200 nýir öryrkjar skráðir. Útlagður kostnaður samfélagsins vegna þeirra nemi um 2-2,5 milljörðum króna á ári. Þetta kom fram í máli Vilhjálms á fundi SA um komandi kjarasamninga og horfur í efnahagsmálum.
Að sögn Vilhjálms þýðir þessi fjölgun öryrkja að fimm fari út af vinnumarkaði á ári á móti hverjum níu sem koma inn á vinnumarkaðinn á ári. Segir Vilhjálmur að það sé atvinnulífið sem borgi brúsann. „Það er enginn sem borgar þennan reikning nema íslenskt atvinnulíf. Verðum að taka á þessu og hvernig við eigum að ná þessum kostnaði niður. Svo sem með því að fjárfesta í endurhæfingu, aðhaldi, starfsmenntun eða öðrum aðgerðum sem skila árangri."
Að sögn Vilhjálms hafa SA og ASÍ rætt það sín á milli að fjárfesta ætti fyrir 2 milljarða króna árlega í ýmiskonar þjónustuúrræðum. Eins að stytta veikindarétt hjá fyrirtækjum niður í tvo mánuði og eftir það falli greiðsluskylda á áfallatryggingasjóð og sjúkrasjóði verkalýðsfélaga.