Réttlætanlegt að nota orðið nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað tvo fyrrum ritstjóra DV af kröfu manns um að ummæli í fréttum blaðsins um kynferðisbrotamál yrðu dæmd dauð og ómerk og að ritstjórarnir greiddu miskabætur. Taldi dómurinn að notkun blaðsins á orðinu nauðgun hefði verið réttlætanleg.

Málið snýst um dóm, sem kveðinn var upp  í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars í fyrra, þar sem karlmaður var dæmdur í árs fangelsi fyrir kynferðisbrot önnur en samræði með því að notfæra sér ölvun og svefndrunga konu.

Daginn eftir að dómurinn var kveðinn upp birtist umfjöllun um málið í  DV þar sem maðurinn var  ítrekað nafngreindur og sögnin að nauðga notuð oft. M.a. var forsíðufyrirsögn blaðsins: „Nauðgaði áfengisdauðri nektardansmey".

Maðurinn höfðaði meiðyrðamál á þeirri forsendu, að ósatt væri að hann hefði gerst sekur um nauðgun heldur hafi hann verið dæmdur fyrir misneytingu. Ritstjórarnir bentu hins vegar á, að  notkun orðsins „nauðgun“ í almennri málhefð, sé mun víðtækari, en sú skilgreining, sem gefin sé upp í íslenzkri orðabók og sé m.a. almennt notuð yfir samræði eða önnur kynmök gegn samþykki viðkomandi einstaklings.

Héraðsdómur tekur í niðurstöðu sinni undir þetta sjónarmið ritstjóranna fyrrverandi. Segir síðan, að af fyrirsögn á forsíðu blaðsins sé ljóst, svo ekki verður um villst, að brot mannsins hafi verið framið gegn áfengisdauðri stúlku, þannig að ljóst mátti vera, að ekki var um mótspyrnu við verknaðinum að ræða. Hafi hverjum þeim, sem las fyrirsögnina, mátt vera ljóst, að maðurinn kom fram vilja sínum með því að færa sér í nyt ástand stúlkunnar, sem ekki gat spornað við verknaðinum vegna ástands síns.  Hið sama komi fram í yfirskrift sjálfrar greinarinnar í blaðinu og þar sé  því hvergi haldið fram, að um fullframið samræði hafi verið að ræða.

Fellst dómurinn því ekki á, að yfirskrift og frásögn í umræddu blaði DV, hafi verið til þess fallin að gefa ranga mynd af brotinu og hafi þannig valdið manninum miska, umfram það, sem búast mátti við, að fjölmiðlaumfjöllun um brot hans gæti valdið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert