Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður, sem tvívegis hefur á árinu verið dæmdur í fangelsi fyrir ýmis afbrot, sæti gæsluvarðhaldi til 19. desember eða þar til áfrýjunarfestur til Hæstaréttar rennur út.
Maðurinn var í maí dæmdur í 2 ára fangelsi fyrir ýmis afbrot og í nóvember var hann dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir hegningarlaga- og fíkniefnalagabrot sem hann framdi á þessu ári.
Í úrskurði héraðsdóms er vísað í greinargerð lögreglu um að telja verði manninn vanaafbrotamann í skilningi laga og við rannsókn mála hans hafi komið í ljós að hann hafi verið í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans, virðist einkennast fyrst og fremst af innbrotum í bifreiðar og vörslu þýfis, hafi verið samfelldur og það sé mat lögreglu, að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.