VG vildu frestun annarrar umræðu um fjárlagafrumvarp

Alþingishúsið.
Alþingishúsið.

Þingmenn VG  gerðu í kvöld athugasemdir við það að breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarp hefði fyrst verið dreift á Alþingi í kvöld í ljósi þess að 2. umræða um fjárlög á að fara fram á morgun. 

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði eðlilegt að umræðunni yrði frestað til föstudags í það minnsta enda væri gert ráð fyrir þingfundi þann dag. Ásta R. Jóhannesdóttir, sem sat í forsetastóli Alþingis, varð ekki við þessari kröfu. 

Steingrímur sagði þingmenn hafa verið farna að gera ráð fyrir að ekkert yrði af fjárlagaumræðunni á morgun þar sem engar breytingatillögur hefðu verið komnar fram og að ekki væri boðlegt að þingmenn hefðu engar upplýsingar um það hvað væri í vændum.

Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson, þingmenn VG, tóku undir orð Steingríms og sagði Ögmundur að ekki hefði verið haft samráð við sig sem þingflokksformann Vinstri-grænna um þessa tilhögun. Þá sagðist hann velta því fyrir sér hvort værið væri að taka upp ný vinnubrögð, að hafa að engu sjónarmið stjórnarandstöðunnar.

Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingar og formaður fjárlaganefndar, svaraði því að fjölmörgu mætti breyta við verklag fjárlaganefndar og að hann hygðist beita sér fyrir því, en að ljóst væri að fjárlaganefnd hefði ákveðna verkáætlun, hún hefði lokið sinni vinnu á mánudag og að upplýsingar hefðu legið ljósar fyrir og í hvað stefndi.

Fjárlagaumræðan á að hefjast á Alþingi klukkan 10:30 í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka