VG vildu frestun annarrar umræðu um fjárlagafrumvarp

Alþingishúsið.
Alþingishúsið.

Þing­menn VG  gerðu í kvöld at­huga­semd­ir við það að breyt­ing­ar­til­lög­um meiri­hluta fjár­laga­nefnd­ar um fjár­laga­frum­varp hefði fyrst verið dreift á Alþingi í kvöld í ljósi þess að 2. umræða um fjár­lög á að fara fram á morg­un. 

Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, þingmaður VG, sagði eðli­legt að umræðunni yrði frestað til föstu­dags í það minnsta enda væri gert ráð fyr­ir þing­fundi þann dag. Ásta R. Jó­hann­es­dótt­ir, sem sat í for­seta­stóli Alþing­is, varð ekki við þess­ari kröfu. 

Stein­grím­ur sagði þing­menn hafa verið farna að gera ráð fyr­ir að ekk­ert yrði af fjár­la­gaum­ræðunni á morg­un þar sem eng­ar breyt­inga­til­lög­ur hefðu verið komn­ar fram og að ekki væri boðlegt að þing­menn hefðu eng­ar upp­lýs­ing­ar um það hvað væri í vænd­um.

Jón Bjarna­son og Ögmund­ur Jónas­son, þing­menn VG, tóku und­ir orð Stein­gríms og sagði Ögmund­ur að ekki hefði verið haft sam­ráð við sig sem þing­flokks­formann Vinstri-grænna um þessa til­hög­un. Þá sagðist hann velta því fyr­ir sér hvort værið væri að taka upp ný vinnu­brögð, að hafa að engu sjón­ar­mið stjórn­ar­and­stöðunn­ar.

Gunn­ar Svavars­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar og formaður fjár­laga­nefnd­ar, svaraði því að fjöl­mörgu mætti breyta við verklag fjár­laga­nefnd­ar og að hann hygðist beita sér fyr­ir því, en að ljóst væri að fjár­laga­nefnd hefði ákveðna ver­káætl­un, hún hefði lokið sinni vinnu á mánu­dag og að upp­lýs­ing­ar hefðu legið ljós­ar fyr­ir og í hvað stefndi.

Fjár­la­gaum­ræðan á að hefjast á Alþingi klukk­an 10:30 í fyrra­málið.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert