Íslensk börn eru í 32. sæti þegar kemur að lestrarkunnáttu 9 ára barna í 45 löndum samkvæmt PIRLS könnuninni, sem gerð er á fimm ára fresti. Íslendingar standa sig verr en fyrir fimm árum.
PIRLS er alþjóðleg könnun er tekur til lestrarkunnáttu barna í fjórða bekk, og sér Námsmatsstofnun um framkvæmdina hér á landi. Samkvæmt skýrslunni er sá aldur mikilvægur mælikvarði þar sem börn eiga þegar fjórða bekk er náð að hafa náð tökum á lestri og nota hann til náms.
Íslensk börn fá 511 stig þar sem 500 er meðaltal könnunarinnar, en fengu 512 þegar síðasta könnun var birt fyrir fimm árum.
Rússnesk börn standa sig best, þá börn í Hong Kong og börn í Alberta í Kanada skipa þriðja sætið. Lestrarkunnátta var sérstaklega mæld á fimm svæðum í Kanada, og er Ísland í 28. sæti ef Kanada er metið í heild.
Danir og Svíar standa sig mun betur en Íslendingar, Svíar eru í tíunda sæti og Danir því fimmtánda, en Norðmenn verst af þeim Norðurlöndum sem tóku þátt og eru í 35. sæti. Finnar tóku ekki þátt í könnuninni.
Íslendingar eru við meðaltalið og mælast með svipaða kunnáttu og Ísraelar og Spánverjar.
Verst er ástandið í Suður Afríku, þar mældust nemendur aðeins með 302 stig, næst marokkósk börn með 323 stig og kúvaítar með 330 stig.