Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur ætla aftur að sameinast um jólaaðstoð í ár þar sem reynslan frá síðustu jólum var mjög góð. „Miðað við þá vaxandi þörf fyrir aðstoð sem hefur komið í ljós allt þetta ár er ljóst að margir þurfa á stuðningi að halda um jólin. Má gera ráð fyrir að þeir skipti þúsundum,“ segir í fréttatilkynningu.
Markmiðið með þessu samstarfi er að bæta aðstoð við þá sem leita eftir henni, hvar á landinu sem þeir búa, um leið og fyrirtækjum er gert auðveldara fyrir. Aðstoðin felst fyrst og fremst í dreifingu á matvælum. Úthlutun verður í Sætúni 8, kaffibrennslu Ó. Johnson & Kaaber í Reykjavík. Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands styrkir starfið áfram með fjármunum og sjálfboðaliðum og Kaupþing banki sér starfinu fyrir húsnæði.