Miðað við íbúafjölda leggja íslensk löggæsluyfirvöld árlega hald á meira magn ólöglegra fíkniefna á landamærum en flestar nágrannaþjóðir okkar, segir í fréttatilkynningu frá Ríkisendurskoðun.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna" kemur fram að viðbúnaður íslenskra yfirvalda vegna fíkniefnasmygls er að vissu leyti meiri en í öðrum löndum.
Sé horft til íbúafjölda leggja þau líka árlega hald á meira magn ólöglegra efna á landamærum en gert er víða annars staðar.
Á árunum 2003–2006 komu þau upp um samtals 493 tilraunir til að smygla slíkum efnum hingað til lands og jafngildir það því að smygltilraun hafi verið stöðvuð þriðja hvern dag allt tímabilið.
Ríkisendurskoðun áætlar að götuvirði helstu flokka haldlagðra fíkniefna hafi numið tæpum 5 milljörðum króna á árinu 2006 einu saman en þá var lagt hald á óvenju mikið magn efna.
Þrátt fyrir þessa viðleitni yfirvalda til að hefta framboð ólöglegra fíkniefna er talið að neysla slíkra efna hafi aldrei verið meiri en um þessar mundir.