Ríkisstjórn Noregs hyggst fá óháða sérfræðinganefnd til að meta hvaða áhrif umdeild þjónustutilskipun Evrópusambandsins muni hafa fyrir Noreg. Starf nefndarinnar gæti leitt til þess að Norðmenn beittu í fyrsta sinn neitunarvaldi í EES-samstarfinu.
Tveir af stjórnarflokkum Noregs, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn, hafa lýst yfir miklum efasemdum um gildi tilskipunarinnar og eru opnir fyrir því að beita neitunarvaldi, en Verkamannaflokkurinn er því mótfallinn.Nefndinni er ætlað að skoða hvort tilskipunin geti leitt af sér undirboð á vinnumarkaði og hvaða áhrif hún myndi hafa á opinbera þjónustu og réttindi neytenda og er niðurstaðna að vænta fyrir næsta sumar.
Aðalsteinn Leifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, segir það hugsanlega geta leitt til endaloka EES-samningsins ákveði Norðmenn að beita neitunarvaldi. „EFTA-ríki þurfa að vera samstiga og ef Norðmenn neita að taka þjónustutilskipunina inn í EES-samninginn þá verður hún heldur ekki að veruleika á Íslandi eða í Liechtenstein."
Aðalsteinn segir að það sem kunni að gerast í framhaldinu veki áhyggjur. „Ef sáttaferli ber ekki árangur þá fellur sá hluti EES-samningsins sem snertir frjáls þjónustuviðskipti allur úr gildi og í framhaldinu er sjálfur EES-samningurinn í uppnámi."