Starfsmönnum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík er nú gert að tilkynna veikindi til heilbrigðisþjónustufyrirtækisins InPro. Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu, segir starfsmenn ekki skylduga til að tilkynna veikindi til þriðja aðila, heldur beri þeim samkvæmt kjarasamningi að tilkynna þau til vinnuveitenda.
,,Þessu verður ekki breytt nema með kjarasamningum. Öllum stofnunum ríkisins ber að virða það,{ldquo} leggur Þórarinn áherslu á. Hann kveðst hafa heimildir fyrir því að í upphafi hafi starfsmönnum verið tilkynnt að samþykktu þeir ekki að tilkynna InPro um fjarvistir yrðu þeir að skila læknisvottorði daglega og greiða allan kostnað sjálfir. ,,Þeim var einnig tilkynnt að greiðsla veikindalauna félli niður. En nú er verið að draga þetta til baka og reyna að klóra yfir alla vitleysuna."
Guðný Anna Arnþórsdóttir, starfsmannastjóri svæðiskrifstofunnar, segir það ekki rétt að starfsmenn eigi að greiða fyrir læknisvottorð sjálfir. Hún vill ekki tjá sig frekar um málið á þessu stigi, eins og hún orðar það.