Staða öryrkja og aldraða bætt

Morgunblaðið/ Sverrir

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar segir að mikilvægt sé að staðið sé við að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja líkt og ríkisstjórnin hafi lagt upp með. Þetta kom fram í máli hans er önnur umferð um fjárlögin fór fram í morgun.  

 „Með hliðsjón af breytingum innan stjórnarráðsins þá er ljóst að verkefni munu flytjast milli ráðuneyta, málefni aldraðra og öryrkja munu því heyra að mestu undir félagsmálaráðuneytið. Vegna þess hafa þau mál verið skoðuð og munu birtast okkur við 3. umræðu fjárlaga þann 10. desember nk. Án þess að gefa hér nein loforð, þá er það mikilvægt að þau fyrirheit sem lagt var upp með til að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja gangi eftir og Alþingi geti þá stutt umræddar breytingartillögur sem verða teknar til umfjöllunar í fjárlaganefnd áður en þær koma til umfjöllunar á Alþingi.

 Frá því á haustdögum hefur verið að starfi nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem hefur tvíþætt hlutverk. Í fyrsta lagi að skoða aðgerðir sem komi til framkvæmda strax á næsta ári til að bæta hag lífeyrisþega, en stefnt er að því að nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir 1. desember. Von er á niðurstöðum þeirrar nefndar á næstu dögum og því er unnið að því að tillögur til að bæta hag lífeyrisþega komi fram við 3. umræðu fjárlaga, líkt eins og fram kom í máli mínu hér áðan.

Í öðru lagi er unnið að því á vegum félagsmálaráðuneytisins að móta tillögur í samræmi við stjórnarsáttmálann sem miða að því að einfalda almannatryggingakerfið og skoða samspil þess og lífeyriskerfisins. Það ber að ítreka að stjórnarmeirihlutinn hefur einsett sér það að vinna að einföldun almannatryggingakerfisins. Eins er brýnt að taka til sérstakrar skoðunar samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar. Boðað hefur verið að dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu.

Öll þau mál eru í vinnslu og er það trú mín að við 3. umræðu þann 10. desember liggi fyrir skýrari línur í þeim verkefnum sem lúta að því að að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja, m.a. í kjölfar tillagna umræddrar nefndar hæstv. félagsmálaráðherra," sagði Gunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka