Slökkviliðið á Egilsstöðum var kallað að parhúsíbúð í bænum um hálf tólfleytið í gærkvöldi þar sem var mikill reykur inni. Þegar að var gáð reyndist húsráðandi ekki heima, en sviðakjammi sem hann hafði gleymt í potti á eldavélinni var illa viðbrunninn.
Ekki munu hafa orðið teljandi skemmdir í íbúðinni, að sögn lögreglu á Egilsstöðum, en slökkviliðið reykræsti hana. Nágranni hafði orðið var við er reykskynjari í íbúðinni fór í gang og kallaði þá á slökkviliðið.
Húsráðandi hafði brugðið sér af bæ um kvöldmatarleytið en láðst að slökkva undir sviðunum. Því fór sem fór.