Tryggingastofnun skortir lagastoð til að setja lækna út af samningi þótt þeir séu grunaðir um fjársvik. Dómur féll í sumar, þar sem grunaður læknir vann mál gegn stofnuninni og komst inn á samning aftur með sjúklinga sína, þótt lögreglurannsókn á meintum svikum hans stæði yfir. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar. Samkvæmt heimildum 24 stunda var fyrir tveimur árum samið frumvarp til breytinga á lögum sem áttu að styrkja stöðu TR í svikamálum en það hefur ekki komið fram á Alþingi.
Eftirlit Tryggingastofnunar er langtum smærra í sniðum en í nágrannalöndum. Hér starfar tveggja manna tilraunadeild, en annars sinna fagstjórar hvers sviðs eftirliti meðfram öðrum störfum. Engar upplýsingar fást um hvenær rannsókn á meintum tryggingasvikum tannlæknis í Keflavík lýkur. Almennt er slík rannsókn sögð geta tekið nokkur ár í héraði, þar sem aðstæður eru erfiðari en hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Málinu var fyrst beint þangað en það sent heim í hérað í mars. Fyrningarfrestur vegna fjársvikamála er tíu ár og tilgangslítið að láta rannsókn ná lengra aftur í tímann, þótt málið nái lengra aftur í tímann, en TR telji sig ekki hafa haft aðstæður til að kæra fyrr en gert var.
Tryggingastofnun sætir gagnrýni fyrir að hafa ekki gripið fyrr inn í þrátt fyrir grun um fjársvik í fjórtán ár. Tryggingatannlæknir sætir gagnrýni frá tannlæknum fyrir að varpa rýrð á störf stéttarinnar með ósönnuðum frásögnum. Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra sætir gagnrýni fyrir að vísa málinu frá sér og lögreglan almennt fyrir seinagang. Heilbrigðisráðherra sætir gagnrýni fyrir að hafa ekki fengið TR úrræði sem duga til eftirlits og aðgerða gegn svikum. Undir þessu öllu situr grunaður tannlæknir og fær hvorki dóm né uppreisn æru árum saman.