Inga Lára Hauksdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Lyfjum og heilsu, segist taka undir ummæli Páls Gunnar Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins um að lyfjaumhverfið hér á landi sé of flókið. Fyrirtækið er hins vegar ekki hlynnt því að lyf verði seld víðar en í lyfjaverslunum.
Inga Lára segir að vissulega megi einfalda lyfjaumhverfið hér á landi, og segir að þótt eftirlit sé nauðsynlegt þá jaðri það nú við ofureftirlit, sem sé mjög kostnaðarsamt fyrir smásala.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði á morgunfundi Rannsóknarstofnunar um lyfjamál við Háskóla Íslands í dag að breyta þurfi lyfjaumhverfi hér á landi. Sagði hann m.a. að vel mætti hugsa sér að selja lyf í matvöruverslunum og víðar og auðvelda póstverslun með lyf.
Inga Lára tekur ekki undir þessar hugmyndir og segir óæskilegt að lyf séu seld annars staðar en í lyfjaverslunum þar sem um sé að ræða vöru sem þurfi bæði sérstaka meðhöndlun og þekkingu þeirra sem selja þau.
Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju, tekur undir orð Ingu Láru og segir að ef ákvörðun verði tekin um að selja smásölulyf í verslunum verði að stíga mjög varlega til jarðar með það. Hann bendir á að t.d. í Danmörku hafi aðeins verið ákveðið að selja mjög takmarkað úrval lyfja, og þá aðeins í minnstu pakkningum.
Hann segir einnig að sú ákvörðun að selja lyf í verslunum og í póstverslun gæti reynst minni lyfjaverslunum á landsbyggðinni erfið, þar sem stór hluti viðskipta í lyfjaverslunum séu smásölulyf sem ekki séu lyfseðilskyld.
Á vefsíðu danskra lyfjafræðinga er varað við smásölu á lyfjum í verslunum og segir m.a. að notkun verkjastillandi lyfja meðal barna hafi aukist um 33% frá því að smásala á slíkum lyfjum var leyfð í stórmörkuðum, söluturnum og bensínstöðvum árið 2001.
Þá segir að þegar lyf í smásölu séu sett við hlið mjólkur og rúgbrauðs í verslunum séu um leið send þau skilaboð til neytenda að ekki sé þurfi að huga sérstaklega að notkun þeirra. Hins vegar geti lyf sem ekki eru lyfseðilskyld verið jafn hættuleg og þau sem eru lyfseðilskyld.