Vegna veðurs og ófærðar um allt land hefur Landsvirkjun ákveðið, að þeir sem áttu að koma með flugi frá Reykjavík til Egilsstaða í morgun til að vera viðstaddir gangsetningarathöfn Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdalsstöð munu koma saman á Hótel Nordica kl. 13:30 og verður athöfnin því á báðum stöðum samtímis.
Ræður fara fram um fjarfundabúnað og vélar nr. fimm og sex í stöðvarhúsinu verða ræstar úr Reykjavík af Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra. Ávörp Páls Magnússonar, stjórnarformanns Landsvirkjunar, Össurar Skarphéðinssonar, Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar og Guðmundar Péturssonar, yfirverkefnisstjóra Kárahnjúkaverkefnisins verða því flutt í Reykjavík.
Búist var við um 100 manns með flugi austur vegna dagsins, en nú verða heimamenn einir um hituna í stöðvarhúsinu, þar sem oddviti Fljótsdalshrepps, Gunnþórunn Ingólfsdóttir og Georg Pálsson stöðvarstjóri Fljótsdalsstöðvar verða burðarásar, ásamt öðrum góðum gestum.