Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Tveimur fartölvum var stolið úr húsi í Garðabæ, skartgripir og myndavél voru tekin af heimili í Árbæ og í Hafnarfirði var brotist inn í tvær geymslur í fjölbýlishúsi. Þá var peningaveski stolið úr bíl í Kópavogi.
Í Kringlunni var hálfsextug kona tekin fyrir þjófnað en hún stal fatnaði úr tveimur verslunum. Í Smáralind var rúmlega tvítug kona stöðvuð fyrir sömu sakir. Hún hafði farið í mátunarklefa verslunar með náttslopp og nærföt og klippti þar þjófavörnina af vörunum. Hún tók síðan náttsloppinn ófrjálsri hendi en skildi nærfötin eftir í klefanum.
Aðspurð um nærfötin sagðist konan hafa ætlað að stela þeim líka en hætt við þegar í ljós kom að þau pössuðu ekki á hana.