Rætt um fjárlög fram á nótt

Þingmenn ræddu um fjárlög næsta árs fram á nótt.
Þingmenn ræddu um fjárlög næsta árs fram á nótt. mbl.is/Ómar

Þingmenn ræddu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi til klukkan 1 í nótt og verður frumvarpið áfram til umræðu í dag þegar þingfundur hefst klukkan 10:30. Enn var tæpur tugur þingmanna á mælendaskrá þegar fundi var slitið í nótt.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega forsendur  frumvarpsins, sagði óvissuþætti of mikla og áætlanir um minnkandi verðbólgu ekki trúverðugar. Þá sögðu þeir að engin stefnubreyting væri í fjárlagaáherslum, forgangsröðunin væri sú sama og þess sæi ekki stað að núverandi ríkisstjórn hygðist efna umfangsmikil kosningaloforð.

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, sagði nefndina hafa haldið 31 fund og átt viðtöl við hundruð aðila við afgreiðslu frumvarpsins en gagnrýndi jafnframt það vinnulag að nefndin væri að hitta aðila vítt og breitt um landið vegna einstakra verkefna á þessum árstíma. Það mætti gera á öðrum tímum.

Þá ítrekaði Gunnar þær hugmyndir sínar að þingið ætti að sinna betur eftirlitsskyldu sinni með fjárlögum. „Síðustu mánuðina hefur nefndin breytt verulega um vinnulag og hefur fjallað ítrekað um framkvæmd fjárlaga,“ sagði Gunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert