Skattalækkun frestað?

Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gefur til kynna í viðtali við fréttaveituna Bloomberg í dag, til greina komi að bíða eitthvað með áformaðar skattalækkanir þar til dregið hefur úr þenslu og verðbólgu.

Geir segir, að tímasetningar skattalækkana séu afar mikilvægar. Ekkert liggi á og stjórnvöld vilji tímasetja lækkanirnar með tilliti til þess sem sé að gerast í hagkerfinu.

Þá er haft eftir Geir, að ríkisstjórnin ætli ekki að tengja skattalækkanir við kjarasamninga. 

Ekki hörð lending heldur snertilending

Geir segir, að íslenska hagkerfið stefni ekki í harða lendingu og allir hagvísar bendi til þess, að efnahagskerfið sé afar virkt. „Uppáhalds skilgreining mín í þessum lendingarnafngiftum er snertilending: að lenda mjúklega og taka síðan strax á loft aftur." 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, að stefnt skuli að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar. Einnig sé stefnt að því að lækka frekar skatta á fyrirtæki. 

Greining Glitnis segir í Morgunkorni sínu, að alþjóðleg matsfyrirtæki og stofnanir hafi ávítt stjórnvöld fyrir rangar tímasetningar skattalækkana og skammsýna stefnu í ríkisfjármálum. Í síðustu viku hafi Standard & Poor's breytt horfum fyrir lánshæfi ríkissjóðs í neikvæðum úr stöðugum vegna viðvarandi áhyggna af ójafnvægi í hagkerfinu.

Þá segir Glitnir, að orð Geirs séu  góð tíðindi fyrir Seðlabankann enda sé lítill broddur í aðhaldsamri peningamálastefnu sem rekin sé samhliða reglulegum skattalækkunum úr stjórnarráðinu. Slíkt sendi tvöföld skilaboð til hagkerfisins sem sé afar óheppilegt á óvissutímum líkt og þeim sem nú ríki.

Viðtal Bloomberg við Geir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert